Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 24/2023

Úrskurður 24/2023

 

Föstudaginn 3. nóvember 2023 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 29. júní 2023, kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli.

 

Kærandi krefst þess að ráðuneytið komist að niðurstöðu um að embætti landlæknis hafi brotið gegn málshraðareglu stjórnsýsluréttar.

 

Málið er kært á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

I. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytisins.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi farið í tvær aðgerðir á Landspítala í kjölfar þess að matur festist í vélinda hans. Síðari aðgerðin hafi ekki farið eins og gert hafi verið ráð fyrir og hafi kærandi legið á gjörgæsludeild spítalans í nokkrar vikur. Hafi læknar tjáð kæranda að líklega hefði hólkur, sem komið hafði verið fyrir í fyrri aðgerðinni og fjarlægður í þeirri seinni, verið gallaður. Sendi kærandi kvörtun til embættis landlæknis þann 13. október 2022 vegna meintra mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu en kvörtunin er enn til meðferðar hjá embættinu.

 

Kæra í málinu var send embætti landlæknis til umsagnar, en umsögn barst 4. ágúst 2023. Kærandi kom athugasemdum á framfæri 25. ágúst sl. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi kveðst hafa fengið svar frá embætti landlæknis þann 28. nóvember 2022, en í svarinu hafi komið fram að óskað hefði verið eftir greinargerðum og gögnum frá Landspítala vegna málsins. Í svarinu segi að málsmeðferðartími kvartana hjá embættinu sé langur, eða um 1-4 ár. Fram kemur að kærandi hafi enn ekki verið veittur aðgangur að greinargerð Landspítala sem hafi átt að berast í janúar 2023. Þá hafi erindum hans frá 10. maí og 5. júní sl. ekki verið svarað af embættinu.

 

Byggir kærandi á því að málsmeðferðartími embættis landlæknis fari í bága við ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi einnig ámælisvert að embætti landlæknis hafi ekki upplýst kæranda um að málið myndi dragast og að svara ekki erindum hans. Í ljósi þess að málið varði verulega persónulega hagsmuni hans sé mikilvægt að hraða afgreiðslu málsins, en kærandi kveðst vera óvinnufær og þurfa reglulega að fara í víkkun á vélinda. Skipti sköpum að niðurstaða fáist í málið sem fyrst til að hann geti leitað réttar síns hjá viðeigandi aðilum. Þar sem málið varði mögulega skaðsemisábyrgð skv. lögum nr. 25/1991 sé einnig mikilvægt að fá niðurstöðu í málið þar sem kröfur á grundvelli laganna fyrnast á þremur árum. Telur kærandi málsmeðferðartíma embættisins úr hófi og ekki samræmast 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 

III. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis.

Í umsögn embættis landlæknis segir að sjúkraskrárgögn í málinu hafi borist frá Landspítala þann 8. desember 2022 en frestur til að leggja fram greinargerð hafi verið framlengdur til 31. janúar 2023. Eftir erindi frá kæranda í mars hefði embættið fengið þær upplýsingar frá Landspítala að málið hefði óvart verið merkt „Lokið“ í málaskrá spítalans. Fram kemur að Landspítali hafi sent embættinu greinargerð læknis þann 26. apríl sl. Embættið hafi tjáð kæranda í júlí að málsgögn hefðu borist en að sérfræðingateymi embættisins ætti eftir að fjalla um gögnin m.t.t. þess hvort þau væru nægjanleg.

 

Embættið vísar til þess að yfir 420 kvartanamál séu til meðferðar og að málsmeðferðartími sé mjög langur vegna manneklu og fjölda mála. Meðferð mála geti dregist t.a.m. vegna umfangs máls og tafa á öflun gagna, auk þess sem tímafrekt geti verið að finna óháðan sérfræðing til að leggja mat á efni kvörtunar. Segir embættið miður að málsmeðferðartími sé svo langur en kvörtun kæranda sé í vinnslu og embættið hafi reynt að halda lögmanni hans upplýstum um gang rannsóknarinnar eins og kostur sé. Tekur embættið fram í umsögn sinni að réttur til að bera fram kvörtun sé þáttur í eftirliti embættisins með heilbrigðisþjónustu og ætlað að stuðla að bættum gæðum og öryggi sjúklinga. Tilgangur rannsóknar sé ekki að undirbyggja mögulegar bótakröfur eða kveða á um bótaskyldu. Embættið leggi ekki mat á hvort um sök eða bótaskyldu sé að ræða, né heldur hvort tjón kæranda verði rakið til galla á tækjum eða búnaði sem notuð voru í umræddri aðgerð. Vísar embættið á Sjúkratryggingar, en það sé ekki forsenda fyrir bótakröfu eða afgreiðslu Sjúkratrygginga á máli að niðurstaða liggi fyrir hjá embætti landlæknis. 

 

IV. Athugasemdir kæranda.

Kærandi segir mikilvægt að rannsókn embættisins gangi hratt fyrir sig, enda hún mikilvægur liður í að upplýsa málið. Þá muni kærandi fá aðgang að fullnægjandi gögnum og upplýsingum um málið. Byggir kærandi á því að þær ástæður sem embætti landlæknis vísar til varðandi tafir á málsmeðferð breyti ekki hagsmunum kæranda af því að fá úrlausn í málinu innan eðlilegs tíma.

 

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli.

 

Í II. kafla laga um landlækni og lýðheilsu er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um kvörtun til landlæknis í 12. gr. laganna, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

 

Í 9. gr. stjórnsýslulaga eru ákvæði um málshraða, en samkvæmt 1. mgr. skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Kveðið er á um í 2. mgr. ákvæðisins að þar sem leitað sé umsagnar skuli það gert við fyrsta hentugleika. Ef leita þarf eftir fleiri en einni umsögn skal það gert samtímis þar sem því verður við komið. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. ber stjórnvaldi að skýra aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í 4. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

 

Kæruheimild 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er afmörkuð þannig að aðeins er heimilt að kæra málsmeðferð embættis landlæknis í málum samkvæmt 12. gr. til ráðherra. Er það mat ráðuneytisins að líta verði svo á að kæranda sé heimilt að kæra meðferð málsins til ráðuneytisins að því er varðar meintar tafir á afgreiðslu málsins hjá embættinu, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 

Eins og áður greinir lagði kærandi fram kvörtun til embættis landlæknis þann 13. október 2022. Óskaði embættið eftir gögnum frá Landspítala þann 28. nóvember sama ár. Embættið framlengdi frest Landspítala til að skila greinargerð sem barst embættinu ekki á réttum tíma vegna atvika er vörðuðu spítalann. Barst embættinu greinargerð frá lækni sem kvartað var undan þann 26. apríl sl. Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá embætti landlæknis um stöðu máls kæranda þann 2. nóvember 2023 en í svörum embættisins segir að gögn málsins, þ.m.t. greinargerð læknis, hafi verið sent kæranda þann 16. ágúst sl. og að athugasemdir hafi borist frá lögmanni þann 29. sama mánaðar. Athugasemdirnar hafi verið sendar Landspítala til kynningar og athugasemda með fresti til 10. nóvember.

 

Ljóst er að staða kvörtunarmála er þung hjá embætti landlæknis og tilkynnir embættið þeim aðilum sem senda inn kvörtun að meðferð slíkra mála sé mjög löng. Er kvartandi þannig upplýstur um að meðferð kvörtunar muni taka lengri tíma en almennt eigi við um mál í stjórnsýslunni. Umboðsmaður Alþingis hefur átt í samskiptum við ráðuneytið vegna málsmeðferðartíma kvartanamála hjá embættinu og talið langan málsmeðferðartíma almennt ekki vera í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga, sbr. bréf hans til ráðuneytisins þann 23. desember 2022 og 24. febrúar 2023. Að því er mál kæranda varðar skýrast tafir málsins að nokkru leyti af því að beðið var umsagnar frá Landspítala í málinu. Eftir að umsögn barst embættinu liðu tæpir fjórir mánuðir áður en hún var kynnt kæranda til athugasemda. Af hálfu embættis landlæknis hefur komið fram að sérfræðingar embættisins hafi á þeim tíma lagt mat á hvort gögnin teldust fullnægjandi til að þau yrðu kynnt fyrir kæranda. Er það mat ráðuneytisins að sá tími sem leið frá því að gögnin bárust embætti landlæknis og þar til þau voru kynnt kæranda hafi verið með lengra móti sé litið til sjónarmiða að baki 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Telur ráðuneytið rétt að embættið leitist við að kynna aðilum í kvörtunarmálum gögn á skemmri tíma en í máli kæranda.

 

Á hinn bóginn telur ráðuneytið, með vísan til skýringa embættis landlæknis á þeim töfum sem orðið hafa á gagnaöflun frá Landspítala, að meðferð málsins, sem er nú rúmir 12 mánuðir, fari að svo stöddu ekki í bága við þær kröfur sem 9. gr. stjórnsýslulaga gerir til málshraða. Lítur ráðuneytið í því sambandi til almenns umfangs kvörtunarmála og kröfu rannsóknarreglu stjórnsýslulaga um að þau séu nægjanlega upplýst áður en álit er gefið út. Þa liggja upplýsingar frá embætti landlæknis um að athugasemdir kæranda við greinargerð læknis séu í andmælaferli hjá Landspítala og málið því í eðlilegum farvegi hjá embættinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð embættis landlæknis í máli kæranda er að svo stöddu í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum